Áætlað að 209.300 manns á aldrinum 16–74 ára hafi að jafnaði verið á vinnumarkaði í maí 2018, sem jafngildir 83,4% atvinnuþátttöku. Þetta kemur fram á vef Hagstofunnar. Af þeim voru 201.100 starfandi og 8.200 án vinnu og í atvinnuleit. Hlutfall starfandi af mannfjölda var 80,1% en hlutfall atvinnulausra af vinnuafli var 3,9%.

Samanburður mælinga fyrir maí 2017 og 2018 sýnir að vinnuaflið jókst um 6.000 manns en hlutfall þess af mannfjölda lækkaði um 1,3 prósentustig. Fjöldi starfandi jókst um 8.100 manns en hlutfall þeirra af mannfjölda lækkaði um 0,3 prósentustig.

Atvinnulausir voru um 2.100 færri en í maí árið 2017 og hlutfall þeirra lækkaði um 1,2 prósentustig. Alls voru 41.700 utan vinnumarkaðar í maí 2018 og hafði þeim fjölgað um 5.100 manns frá því í maí 2017 þegar þeir voru 36.600.

Íslenskur vinnumarkaður sveiflast reglulega milli mánaða vegna árstíðabundinna þátta. Samkvæmt árstíðaleiðréttum tölum var fjöldi fólks á vinnumarkaði 204.900 í maí 2018. Atvinnuþáttaka var því 81,6% í maí, og minnkaði um 0,7 prósentustig frá því í apríl. Áætlaður fjöldi atvinnulausra í maí var samkvæmt árstíðaleiðréttingunni 4.700 og minnkaði um 2.400 manns frá áætluðum fjölda í apríl.

Hlutfall atvinnulausra lækkaði því úr 3,5% í apríl 2018 í 2,3% í maí 2018, eða um 1,2 prósentustig.