*

laugardagur, 16. nóvember 2019
Innlent 26. september 2019 10:04

Atvinnuleysi 4,4% í ágúst

Samtals voru atvinnulausir 8.500 í ágúst eða 4,4% sem er 1,3 próserntustigum hærra en í júlí.

Ritstjórn
Atvinnulausir voru 8.500 í nýliðnum ágúst.
Edwin Roald Rögnvaldsson

Samkvæmt árstíðaleiðréttum tölum vinnumarkaðsrannsóknar Hagstofunnar voru atvinnulausir 8.500 í ágúst, eða 4,4%. Þetta er mikil aukning frá júlí mánuði þegar atvinnuleysi mældist 3,1%, að því er kemur fram í frétt á vef Hagstofu Íslands. 

Árstíðaleiðrétt atvinnuþátttaka var 80,0%, sem er um 1,2 prósentustigum lægri en í júlí. Árstíðarleiðrétt hlutfall starfandi fólks var 76,9% í ágúst 2019 sem er með því lægsta sem mælst hefur síðasta hálfa árið.

„Þegar horft er til síðustu sex mánaða, sýnir árstíðarleiðrétt leitni að tölur um atvinnuþátttöku lækkuðu um 1,4 prósentustig og hlutfall starfandi um 1,7 prósentustig, á meðan atvinnuleysi jókst um 0,3 prósentustig,“ segir á vef Hagstofunnar. 

„Samkvæmt óleiðréttum mælingum er áætlað að um 204.300 manns á aldrinum 16–74 ára hafi að jafnaði verið á vinnumarkaði í ágúst 2019. Það jafngildir 79,5% (±2,7) atvinnuþátttöku. Af vinnuaflinu reyndust 195.800 (±3.800) vera starfandi og 8.600 (±700) án vinnu og í atvinnuleit. Hlutfall starfandi af mannfjölda var 76,2% (±3,0) og hlutfall atvinnulausra af vinnuafli var 4,2% (±1,3).

Samanburður óleiðréttra mælinga fyrir ágúst 2018 og 2019 sýnir að vinnuaflið dróst saman um 2.400 manns og að hlutfall þess af mannfjölda dróst saman um tæp 3 prósentustig. Starfandi fólki fækkaði um 5.800 og hlutfall þess var rúmlega 4 prósentustigum lægra en það var á sama tíma árið 2018.

Samkvæmt óleiðréttum mælingum voru atvinnulausir í ágúst 2019 um 3.500 manns fleiri en á sama tíma árið 2018 þegar þeir voru 5.100. Þá sýna óleiðréttar mælingar töluverða hækkun á hlutfalli atvinnulausra milli ára, eða um 1,7 prósentustig. Einnig eru mun fleiri áætlaðir utan vinnumarkaðar í ágúst 2019, eða um 52.600, samanborið við 44.100 í ágúst árið á undan.“

Stikkorð: atvinnuleysi