Árstíðaleiðrétt atvinnuleysi var 5,8% í október 2021, árstíðaleiðrétt atvinnuþátttaka var 79,2% og hlutfall starfandi 75,5%. Þetta kemur fram í vinnumarkaðsrannsókn Hagstofu Íslands.

„Árstíðaleiðrétt atvinnuleysi jókst um 2,3 prósentustig á milli mánaða á meðan árstíðaleiðrétt hlutfall starfandi dróst saman um 0,2 prósentustig. Árstíðaleiðrétt leitni atvinnuleysis hefur dregist saman um 0,8 prósentustig síðustu sex mánuði og leitni hlutfalls starfandi hefur aukist um 1,9 prósentustig,“ segir í frétt Hagstofunnar um rannsóknina.

Í vinnumarkaðsrannsókninni kemur jafnframt fram að samkvæmt mælingu án árstíðaleiðréttingar sé áætlað að 210.500 einstaklingar á aldrinum 16-74 ára hafi verið á vinnumarkaði í október 2021 sem jafngildi 79,1% atvinnuþátttöku. Af vinnuaflinu hafi 198.900 verið starfandi og 11.600 atvinnulausir og í atvinnuleit. Hlutfall starfandi af mannfjölda hafi verið 74,7% og hlutfall atvinnulausra af vinnuafli 5,5%. Starfandi hafi að jafnaði unnið 36 stundir á viku í október síðastliðnum. Samanburður við október 2020 sýni að atvinnuleysi hafi dregist saman um 3,2 prósentustig á milli ára og hlutfall starfandi aukist um 5,7 prósentustig.

„Í október 2021 er áætlað að 30.300 einstaklingar hafi haft óuppfyllta þörf fyrir atvinnu (slaki) sem jafngildir 13,8% af samanlögðu vinnuafli og mögulegu vinnuafli. Af þeim voru 38,1% atvinnulausir, 18,6% tilbúnir að vinna en ekki að leita, 10,0% í atvinnuleit en ekki tilbúnir að vinna og 33,3% vinnulitlir (starfandi í hlutastarfi og vilja vinna meira). Samanburður við október 2020 sýnir að hlutfall þeirra sem hafa óuppfyllta þörf fyrir atvinnu hefur lækkað um 3,7 prósentustig á milli ára. Árstíðaleiðréttur slaki hefur þó aukist lítillega eða um 0,4 prósentustig á síðustu sex mánuðum,“ segir í frétt Hagstofunnar.