Alls voru að meðaltali 13.772 manns á atvinnuleysisskrá í febrúar og mældist atvinnuleysi í mánuðinum því 8,6% sem er 0,1 prósentustigs aukning frá janúarmánuði en þá voru 13.458 manns að meðaltali á atvinnuleysisskrá. Þetta kemur fram í frétt á vef Vinnumálastofnunnar.

Þar segir að körlum á atvinnuleysisskrá fjölgi um 187 eða um 0,2 prósentustig að meðaltali en konum um 127 að meðaltali eða um 0,1 prósentustig. „Mest fjölgar atvinnulausum hlutfallslega á Vestfjörðum en þar fjölgar um 26 manns á atvinnuleysisskrá að meðaltali. Atvinnuleysið er 9,2% á höfuðborgarsvæðinuen 7,7% á landsbyggðinni. Mest er það á Suðurnesjum 14,5%, en minnst á Norðurlandi vestra 4,1 %. Atvinnuleysið er 9,3% meðal karla og 7,8% meðal kvenna,“ segir í fréttinni.

Þrjár tilkynningar um hópuppsagnir bárust í febrúar og var 68 manns sagt upp í þeim en í janúar var 140 manns sagt upp í tveimur hópuppsögnum. Laus störf í lok mánaðarins voru 198 og fjölgar þeim um 13 á milli mánaða.

Eins og fram kom í fréttaskýringu í Viðskiptablaðinu hinn 3. mars sl. skýrist aukning atvinnuleysis af árstíðasveiflu en atvinnuleysi eykst jafnan á milli janúar og febrúar. Vinnumálastofnun áætlar að atvinnuleysi verði óbreytt í mars, á bilinu 8,5-8,8%.