Atvinnuleysi á evrusvæðinu hefur ekki verið minna frá því að mælingar hófust árið 1993. Í marsmánuði mældist atvinnuleysi 7,2% á ársgrundvelli í þeim þrettán ríkjum sem nota evruna sem gjaldmiðil. Helsta ástæða þessa minnkandi atvinnuleysis er rakin til betri horfa í efnahagslífi Þýskalands og Frakklands, en einnig í Írlandi, Belgíu, Hollandi og Slóveníu.

Seðlabanki Evrópu fylgist grannt með þessari þróun. Áhyggjur af vaxandi þenslu á vinnumarkaði í kjölfar aukins hagvaxtar gætu gert það að verkum að launahækkanir yrðu meiri heldur en innistæða væri fyrir. Slíkt myndi skapa verðbólguþrýsting og leiða til enn frekari stýrivaxtahækkana Seðlabankans. Greiningaraðilar gera ráð fyrir því að Seðlabanki Evrópu muni hækka stýrivexti sína úr 3,75% upp í 4% í júnímánuði og jafnvel aftur síðar á árinu.

Það hægðist hins vegar aðeins á þeim viðsnúningi sem hefur átt sér stað á þýskum vinnumarkaði í síðasta mánuði, samkvæmt nýjum hagtölum. Þrátt fyrir að hagfræðingar segi að þær tölur hafi verið ákveðin vonbrigði þá bendir ekki neitt til annars en að sá efnahagsuppgangur sem ríkt hefur í Þýskalandi muni halda áfram.

Vinnumálaráðherrann Franz Müntefering greindi frá því í gær að fjöldi atvinnulausra í Þýskalandi sé kominn undir fjórar milljónir í fyrsta skipti frá því árið 2002. Síðustu tvö ár hefur atvinnulausum þar með fækkað um 1,2 milljónir og 750 þúsund störf hafa verið sköpuð í hagkerfinu á sama tíma.

Hin efnahagslega viðreisn í stærsta hagkerfi Evrópu hefur ekki eingöngu verið til góða fyrir hinn öfluga iðnað landsins - enda þótt hann hafi hagnast hvað mest. Þau mörgu ummerki sem eru til staðar um að efnahagur Þýskalands sé farinn að teka hressilega við sér hefur orðið til þess að mörg verkalýðsfélög í landinu eru þegar farin að krefjast töluvert hærri launa fyrir félagsmenn sína.