Atvinnuleysi í þeim þrettán ríkjum sem nota evru sem gjaldmiðil mældist 6,9% á ársgrundvelli í síðastliðnum júnímánuði, en fyrir ári síðan var atvinnuleysi á evrusvæðinu hins vegar 7,9%. Þetta er minnsta atvinnuleysi sem mælst hefur á evrusvæðinu frá því að Eurostat, hagstofa framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins (ESB), hóf fyrst mælingar árið 1993. Hámarki náði atvinnuleysið fyrir þremur árum, en þá mældist það 8,9%.

Þetta er jafnframt minna atvinnuleysi heldur en flestir greiningaraðilar höfðu gert ráð fyrir og mun væntanlega auka líkurnar á því að seðlabanki Evrópu hækki hjá sér stýrivexti í árslok; áhyggjur af launaskriði og auknum verðbólguþrýstingi munu fara vaxandi næstu mánuði, að mati sérfræðinga. Seðlabankinn hefur ítrekað sagt að minnkandi atvinnuleysi sé einn af þeim þáttum sem hann muni sérstaklega horfa til þegar kemur að því að ákvarða stýrivexti bankans og draga úr verðbólgu. Þrátt fyrir að flestir greiningaraðilar búist við því að stjórn bankans muni halda stýrivöxtum óbreyttum í 4% á fundi sínum næstkomandi fimmtudag, munu hinar nýju hagtölur um atvinnuleysi á evrusvæðinu sennilega leiða til þess að bankinn hækki stýrivexti um 25 punkta bráðlega. Flestir hagfræðingar spá því að sú hækkun verði að veruleika annaðhvort í september eða október næstkomandi.

Samkvæmt Eurostat eru samtals 10,4 milljónir manna atvinnulausar í evruríkjunum þrettán, en um 16,1 milljón ef horft er til aðildarþjóðanna 27 sem eru í Evrópusambandinu. Lægsta atvinnuleysishlutfallið í ESB er að finna í Hollandi, 3,3%, en það hæsta er í Póllandi, 10,7%.