Atvinnuleysi í þeim þrettán ríkjum sem notast við evruna sem gjaldmiðil heldur áfram að minnka, en samkvæmt nýjum tölum sem voru birtar í gær mældist það sjö prósent í síðastliðnum maímánuði, sem er 0,1 prósentustigi minna en í apríl. Fyrir þremur árum mældist atvinnuleysið hins vegar 8,9%. Seðlabanki Evrópu telur ljóst að þessi þróun muni halda áfram og í kjölfarið eigi einkaneyslu almennings eftir að aukast verulega, sem aftur muni auka hættuna á verðbólguþrýstingi.

Sumir hagfræðingar eru hins vegar ekki jafn sannfærðir um að laun og einkaneysla muni hækka jafn hratt og seðlabankinn gerir ráð fyrir. Þeir benda á aukna atvinnuþátttöku innflytjenda frá Austur-Evrópu í því samhengi, en sú þróun hefur gert það að verkum að launahækkanir á evrusvæðinu hafa ekki verið jafnmiklar og ella.