Atvinnuleysi á Spáni hefur náð 12 ára hámarki og mældist 13,4% í nóvember. Á öllu evrusvæðinu er sem fyrr mesta atvinnuleysið á Spáni.

Alls eru um 3 milljónir manna skráðir atvinnulausir en yfirvöld á Spáni telja að enn eigi eftir að bætast í hópinn.

Mestu munar um gífurlegar uppsagnir í byggingariðnaði sem síðustu ár hefur vaxið mjög hratt en að sögn Reuters fréttastofunnar nú hrunið niður á skömmum tíma.

Samkvæmt mælingu evrópsku hagstofunnar Eurostat (spænsk yfirvöld mæla ekki atvinnuleysi sjálf) hefur nær ein milljón Spánverja misst vinnuna á einu ári og atvinnuleysi því aukist um 47%, þ.e.a.s. frá því í nóvember 2007.

Samkvæmt nýjust tölum Eurostat mældist meðalatvinnuleysi á evrusvæðinu um 7,8% í nóvember og hækkar lítillega frá fyrra mánuði.