Skráð atvinnuleysi var 0,8% í nóvember en atvinnuleysi hefur mælst undir 1% frá því í júlí á þessu ári. Breytingin frá október er mjög lítil en að meðaltali voru 1.321 manns skráðir atvinnulausir sem eru aðeins 6 manns fleiri en í október. Atvinnuleysi er um 25% minna en á sama tíma fyrir ári þegar það var 1,1%.

Á vef Vinnumálastofnunar segir að atvinnuleysi standi í stað á höfuðborgarsvæðinu þar sem það er nú 0,6% líkt og í október. Hins vegar er atvinnuleysi um 1,2% á landsbyggðinni sem er 0,1 prósentustigi meira en í október.

Þá segir einnig að atvinnuleysi sé óbreytt meðal karla, er 0,6% líkt og í október og breytist lítið hvort heldur er á höfuðborgarsvæðinu og á landsbyggðinni. Atvinnuleysi kvenna er einnig óbreytt á heildina litið eða 1,1%. Atvinnuleysi kvenna á höfuðborgarsvæðinu lækkar þó úr 0,8% í 0,7% og eykst að sama skapi á landsbyggðinni úr 1,7% í 1,8%.

Morgunkorn Glitnis segir þó á föstudagsmorgun að ein birtingarmynd spennu á vinnumarkaði undanfarið hefur verið mikill aðflutningur erlends vinnuafls, en nýskráningar ríkisborgara nýrra ESB ríkja voru 847 í mánuðinum sem er nokkru minna en á undanförnum mánuðum, en í á sama tíma síðasta árs vor skráningar umtalsvert fleiri, eða 1.187. Laus störf á skrá Vinnumálastofnunnar voru 292 í mánuðinum, en athyglisvert er að þeim fjölgar frá sama tíma síðasta árs, en þá voru þau 247.

Rétt um helmingur þeirra sem skráðir eru atvinnulausir hafa verið skráðir í 3 mánuði eða skemur, sem er til marks um mikinn gang á vinnumarkaði segir í morgunkorni Glitnis.