Atvinnuleysi í Portúgal mældist 8,8% á öðrum ársfjórðungi og dróst saman um 1,3 prósentustig frá fyrstu þremur mánuðum ársins samkvæmt gögnum frá hagstofu landsins. Frá sama tímabili í fyrra hefur atvinnuleysi dregist saman um tvö prósentustig.

Þrátt fyrir að atvinnuleysi hafi ekki verið lægra í landinu í 6 ár mældist atvinnuleysi meðal ungs fólks 22,7%.

Samkvæmt frétt Bloomberg er lægra atvinnuleysi rakið til þess að ríkisstjórn Anotnio Costa, forsætisráðherra landsins hefur í auknu mæli dregið úr niðurskurði í launum ríkisstarfsmanna en hefur á sama tíma hækkað óbeina skatta. Þá hefur aukinn útflutningur og ferðamannaiðnaður verið drifkraftur á bak við aukinn hagvöxt í landinu sem hefur leitt til lægra atvinnuleysis.