Atvinnuleysi í Evrópu er víðast hvar meira en á Íslandi. Þetta kemur fram í vinnumarkaðsrannsókn Hagstofu Íslands sem fjallað er um í morgunkornum Íslandsbanka í dag. Þrátt fyrir að atvinnuleysi hér á landi sé hátt í sögulegu samhengi þá var það í lægri kantinum hér af þeim 29 löndum Evrópu sem birtar eru upplýsingar um.

Árstíðarleiðrétt atvinnuleysi hér á landi í janúar var 6,5%, sem var sjötta minnsta atvinnuleysið í þessum samanburði. Minnst er það í Noregi eða 3,3%. Ekki kemur á óvart að atvinnuleysi hafi verið mest á Spáni (23,3%) og næstmest í Grikklandi (19,9%).

Í morgunkornum kemur jafnframt fram að dregið hefur einna mest úr atvinnuleysi hér á landi. Í janúar í fyrra var árstíðarleiðrétt atvinnuleysi hér á landi 7,3% samanborið við 6,5% nú. Á umræddu tímabili hefur atvinnuleysi aukist í fleiri löndum en það hefur minnkað, eða í 16 löndum af 29. Mest hefur dregið úr atvinnuleysi í Eystrasaltslöndunum.