Atvinnuleysi í júnímánuði var 2,3%, og hefur það ekki mælst jafnlágt í júnímánuði síðan árið 2008, þegar það mældist 2,2%.

85,3% atvinnuþátttaka

Kemur þetta fram í vinnumarkaðsrannsókn Hagstofu Íslands, og sýnir hún að í júnímánuði voru að jafnaði 201.800 manns á vinnumarkaði á aldrinum 16-74 ára, en það jafngildir 85,3% atvinnuþátttöku. Þeir sem voru á vinnumarkaði skiptast í starfandi sem námu 197.100 og 4.700 manns án vinnu og í atvinnuleit.

Ef miðað er við júnímánuð fyrir ári síðan, þá minnkaði atvinnuþátttakan um 1,3 prósentustig. Þó jókst fjöldi starfandi um 700 en hlutfallið af mannfjölda minnkaði um 0,8 stig. Fækkaði atvinnulausum um 1.100 manns sem nemur um 0,6 prósentustiga fækkun þeirra af vinnuaflinu.

Árstíðarleiðrétt atvinnuleysi er 2,6%

Ef miðað er við árstíðarleiðréttingu mældist atvinnuleysið 2,6% í júnímánuði, en vegna aukinnar eftirspurnar ungs fólks eftir atvinnu yfir sumarmánuðina mælist það hærra í apríl og maí og lægra í júní, júlí og ágúst.