Atvinnuleysi mældist 8,1 prósent í Bretlandi í ágúst. Annað eins hefur ekki sést síðan árið 1994. Af þeim 2,57 milljónum manna sem eru án atvinnu í landinu er tæp ein milljón Breta á aldrinum 16 til 24 ára. Það jafngildir 21,3 prósenta atvinnuleysis í þessum hópi. Aldrei hefur jafn mikill fjöldi ungs fólks mælt göturnar þar í landi og nú um stundir.

Breska dagblaðið Guardian hefur eftir hagfræðingum að staðan skýrist af slæmri stöðu efnahagslífsins, hagvöxtur þurfi að vera talsvert meiri til að draga úr atvinnuleysi. Þar sem hagkerfið sé ekki að rétta úr kútnum megi búast við að slæmar fréttir eigi enn eftir að berast af atvinnumarkaði á næstunni.