Atvinnuleysi mældist 4,3% í maí og er það 0,6 prósentustiga lækkun frá í apríl. Til samanburðar mældist að jafnaði 5,1% atvinnuleysi á fyrstu fimm mánuðum ársins. Það mældist að meðaltali 6,7% á sama tíma í fyrra og 8,2% á fyrstu fimm mánuðum ársins 2011. Greining Íslandsbanka segir þetta í neðri mörkum þess sem Vinnumálastofnun hafi reiknað með í mánuðinum og bætir við að tölurnar bendi til þess að staðan á vinnumarkaði hafi batnað töluvert á milli ára. Greiningardeildin segir að þó beri að halda til haga áhrifunum af bráðabirgðaákvæðinu sem gerði atvinnuleitendum kleift að fá greiddar atvinnuleysistryggingar í allt að 4 ár. Það rann út um síðustu áramót og hefur skráð atvinnuleysi af þeim sökum mælst nokkuð minna á þessu ári.

„Í nýrri þjóðhagsspá okkar, sem við gáfum út fyrr í þessum mánuði, reiknum við með að skráð atvinnuleysi verði um 4,7% ár samanborið við 5,8% á síðasta ári, og að það verði komið niður í 3,9% árið 2015. Er atvinnuleysi þá komið nálægt því sem ætla mætti að verði jafnvægisatvinnuleysi á þeim tíma, en jafnvægisatvinnuleysi hefur hækkar talsvert frá því sem það var fyrir hrun,“ segir Greining Íslandsbanka í Morgunkorni sínu.