Atvinnuleysi mældist 12% á evrusvæðinu í febrúar síðastliðnum, samkvæmt upplýsingum sem Eurostat, hagstofa Evrópusambandsins birti í dag. Á sama tíma mældist 10,9% atvinnuleysi innan Evrópusambandsins.

Þetta merkir að 19 milljónir manna hafi mælt göturnar í evruríkjunum. Það er tveimur milljónum meira en í febrúar í fyrra. Talsverður munur er á milli ESB-ríkjanna. Þannig er 5,4% atvinnuleysi í Þýskalandi en 26,4% atvinnuleysi á Grikklandi. TIl samanburðar er 7,7% atvinnuleysi í Bandaríkjunum og 5,5% atvinnuleysi hér á landi.

AP-fréttastofan hefur eftir Laszlo Andor, sem fer með atvinnumál hjá Evrópusambandinu, að staðan sé óviðunandi. Þó sýni tölurnar hversu djúp kreppan sé á evrusvæðinu. AP-fréttastofan bendir á í tengslum við þetta að búist sé við því að landsframleiðsla dragist saman um 0,3% á þessu ári.