Helgi Vilhjálmsson, eigandi sælgætisgerðarinnar Góu, hefur sent frá sér auglýsingar í dag undir yfirskriftinni; Höldum fólki í vinnu, en bæði í Morgunblaðinu í dag sem og Fréttablaðinu eru heilsíðuauglýsingar frá athafnamanninum.

Helgi hefur áður sent frá sér slíkar auglýsingar þar sem hann hefur beint athyglinni að málefnum sem honum þykja brýn, en í þetta sinn segir hann að hægt væri að bjarga fjölda starfa í atvinnulífinu með tímabundinni lækkun mótframlags atvinnurekenda í lífeyrissjóði.

Í auglýsingunni nú setur hann fram hversu háar tölur er að ræða og hve mótframlag atvinnurekenda í lífeyrissjóð hefur hækkað mikið á síðastliðnum árum, en í dag er mótframlagið 11,5% en var t.d. 8% árið 2016.

Þegar Viðskiptablaðið ræddi við Helga í ársbyrjun 2019 talaði hann á sömu nótum en þá hafði hann nýlega birt heilsíðuauglýsingar með tölum sem sýndu að starfsmaður með 500 þúsund króna mánaðarlaun fengi einungis rétt um helminginn af launakostnaði atvinnurekandans í umslagið, því launatengd gjöld hefðu hækkað um 142% frá árinu 2008.

„Núna eru fyrirtækin að berjast í bökkum og þá er ekki rétti tíminn til að rífast, heldur finna lausnir saman. Þannig komumst við upp úr ástandinu og getum horft saman til framtíðar“, segir Helgi um auglýsingar sínar.

„Ef við við skoðum þetta nánar, þá myndi það bjarga yfir 6500 störfum ef mótframlagið yrði lækkað aftur í 8%. Þetta eru svo stórar tölur. Bara þessi lækkun myndi lækka launakostnað fyrirtækja um 39 milljarða á ári án þess að útborguð laun myndu lækka. Það skiptir okkur núna mestu máli að finna leiðir til að lækka kostnað án þess að fókið finni fyrir því. Atvinnuleysi er versti óvinur fólksins.“

Hér fyrir neðan má sjá auglýsingarnar sem birtust í blöðum dagsins í dag:

Auglýsing Helga í Góu 10. sept 2020
Auglýsing Helga í Góu 10. sept 2020
© Aðsend mynd (AÐSEND)