Atvinnuleysi jókst á evrusvæðinu í síðasta mánuði og mældist þá 11,6%. Það hafði staðið óbreytt í 11,5% um nokkurra mánaða skeið og hafði þá aldrei verið hærra.

Eurostat, hagstofa Evrópusambandsins, birtist nýjar atvinnuleysistölur í dag. 11,6% atvinnuleysi merkir að um 18,5 milljónir manna eru án atvinnu innan aðildarríkja evrusvæðisins. Atvinnuleysi er sem fyrr óbreytt í 10,6% innan aðildarríkja Evrópusambandsins.

Talsverður munur er á atvinnuleyi innan aðildarríkja. Þannig er 4,4% atvinnuleysi í Austurríki, 5,2% atvinnuleysi í Lúxemborg og 5,4% atvinnuleysi bæði í Þýskalandi og Hollandi. Á hinn bóginn er það 25,8% á Spáni. Ekki er ljóst hvert hlutfallið er á Grikklandi í mánuðinum. Það var 25,1% á Grikklandi í júlí og verða tölur fyrir ágúst ekki birtar fyrr en í næstu viku. Breska dagblaðið Guardian segir á vef sínum líkur á að fleiri hafi misst vinnuna síðan þá.

Til samanburðar mældist 4,9% atvinnuleysi hér í september, 7,9% í Bretlandi og 7,8% í Bandaríkjunum.