Atvinnuleysi mældist 12,1% á evrusvæðinu í maí og hefur það aldrei verið meira, samkvæmt upplýsingum Eurostat , hagstofu Evrópusambandsins. Það mældist 12,0% í apríl. Þetta er engu að síður ögn skárri niðurstaða en búist var við en hagfræðingar höfðu reiknað með 12,3% atvinnuleysi í mánuðinum. Staðan er langverst í röðum ungs fólks, þ.e. 25 ára og yngri, en það mældist 23,8% í mánuðinum. Verst var staða þessa yngsta aldurshóps á vinnumarkaði á Grikklandi og á Spáni en þar mælir helmingur þess göturnar.

Eurostat segir atvinnuleysi hafa aukist mest í þeim löndum þar sem skuldakreppan hefur þrengt hvað verst að, s.s. á Spáni, Ítalíu og á Írlandi.

Sem fyrr er nokkur munur á atvinnuleysi eftir löndum. Það var eins og svo oft áður lægst í Austurríki en þar mældist það 4,7%. Í Þýskalandi var það 5,3% í maí og 5,7% í Lúxemborg. Á móti mældist 26,9% atvinnuleysi á Spáni og er búist við að það sé svipað á Grikklandi. Til samanburðar mældist 4,3% atvinnuleysi hér á landi í maí.