Ekki er við öðru að búast en að atvinnuleysi haldi áfram að aukast á næstu mánuðum, einna helst vegna árstíðarsveiflu. Þetta segir í morgunkorni greiningar Íslandsbanka. Segir að atvinnuástand versni yfirleitt með haustinu en frá því í september til desember í fyrra jókst atvinnuleysi úr 7,2% í 8,2%. Það jókst svo enn frekar í janúar þegar það fór upp í 8,8%.

Að mati greiningar Íslandsabanka gætir of mikillar svartsýni í spá Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) en samkvæmt nýrri spá sjóðsins reiknar sjóðurinn með að atvinnuleysi verið 8,6% í ár og 8,4% á því næsta.

Greiningin bendir á að ef spá AGS á að rætast þarf atvinnuleysi að mælast að meðaltali 9% á mánuði það sem af er ári. Atvinnuleysi í ágúst mældist 7,3%. „Engu að síður má gera ráð fyrir að atvinnuleysi komi til með að hækka nokkuð hratt á næstu mánuðum og nái hámarki á fyrstu mánuðum næsta árs.“

Ein hópuppsögn í september

Ein tilkynning um hópuppsögn barst Vinnumálastofnun í september, að því er segir í morgunkorni greiningar Íslandsbanka. Þá var 21 starfsmanni sagt upp en fyrirtækið var í byggingariðnaði. Ástæða uppsagna var verkefnaskortur.

Hópuppsagnir í september í ár eru töluvert færri en á sama tímabili í fyrra. Þá var 87 manns sagt upp í hópuppsögnum. Í morgunkorni Íslandsbanka segir að það sé í takti við þá þróun sem verið hefur á árinu. Hópuppsagnir hafa verið talsvert færri en í fyrra, alls hefur Vinnumálastofnun borist 22 tilkynningar um hópuppsagnir þar sem sagt hefur verið upp 515 manns. Á sama tíma í fyrra var búið að segja upp 1.454 starfsmönnum í 43 tilkynningum um hópuppsagnir.

Óvíst hvort uppsagnahrinu sé lokið

„Ekki hægt að slá því föstu að þessari uppsagnahrinu sé lokið. Má hér nefna að sú hætta er fyrir hendi að seinkunin sem hefur orðið á endurskipulagningu skulda margra fyrirtækja, og hefur þá jafnvel tímabundið komið í veg fyrir að mörg þeirra hafi farið í þrot án þess að staða þeirra hafi í raun breyst til hins betra, hafi einnig tímabundið komið í veg fyrir að mörg þeirra hafa ráðist í frekari uppsagnir,“ segir í morgunkorni greiningarinnar.