Atvinnuleysi í janúar mældist 5,8%, en var 6,7% í janúar í fyrra. Atvinnuleysi í desember í fyrra var 5,5%, samkvæmt mælingum Hagstofunnar. Breytingin milli ára felst annars vegar í því að vinnuafl hefur dregist saman úr 178.300 í 177.800 og þeim sem teljast starfandi hefur fjölgað úr 166.300 í 167.400.

Atvinnulausum, þ.e. þeim sem eru án vinnu en eru í vinnuleit, fækkar úr 12.000 í 10.400. Mesta breytingin milli ára er meðal þeirra sem teljast utan vinnumarkaðar, en þeim fjölgaði úr 45.300 í 48.100.

Þá er áhugavert að sjá að meðalvinnuvikan hefur styst úr 39,3 klukkustundum í 37,0 stundir. Atvinnuleysi í janúar 2013 var 6,4% á meðal karla miðað við 6,6% í janúar 2012 og meðal kvenna var það 5,3% miðað við 6,9% í janúar 2012.