Skráð atvinnuleysi var 7,1% í síðasta mánuði, samkvæmt tölum Vinnumálastofnunar. Þetta jafngildir því að 11.348 manns voru að meðaltali atvinnulausir í nóvember. Þetta var fjölgun um 430 manns á milli mánaða.

Samkvæmt upplýsingum Vinnumálastofnunar bættust 322 karlar við atvinnuleysisskrá í mánuðinum en 108 konur. Þá fjölgaði atvinnulausum um 168 á höfuðborgarsvæðinu en um 262 á landsbyggðinni.

Atvinnuleysið var 7,9% á höfuðborgarsvæðinu en 5,7% á landsbyggðinni. Mest var það á Suðurnesjum, eða 12,3%. Minnst var það á Norðurlandi vestra, eða 2,6%.

Alls var 2.021 erlendur ríkisborgari án atvinnu í lok nóvember. Þar af voru 1.186 Pólverjar eða um 59% útlendinga á atvinnuleysisskrá.