Skráð atvinnuleysi reyndist 1,4% af vinnuafli í júlí sem jafngildir því að 2.184 manns hafi að meðaltali verið atvinnulausir í mánuðinum, segir greiningardeild Glitnis.

?Mikil spenna ríkir enn á vinnumarkaði en sennilega hefur atvinnuleysið þegar náð lágmarki. Yfirleitt dregur úr atvinnuleysi á milli júní og júlí en í þetta skiptið jókst það lítillega þar sem það var 1,3% í júní. Árstíðaleiðrétt atvinnuleysi eykst einnig lítillega á milli mánaða. Ef til vill er hér vísbending um að nú dragi lítillega úr spennu á vinnumarkaði samhliða rénun þenslunnar í efnahagslífinu," segir greiningardeildin.

Hún segir að of snemmt er þó að segja til um það enda um minniháttar breytingu að ræða í atvinnuleysinu auk þess sem vinnumarkaður eltir jafnan hagsveiflur með mikilli töf og er þannig seinn til að bregðast við breyttum aðstæðum í samanburði við skjótari markaði svo sem gjaldeyris- og hlutabréfamarkað.

?Atvinnuleysi á höfuðborgarsvæðinu var 1,4% af vinnuafli en á landsbyggðinni var það hins vegar 1,2% af landsframleiðslu. Mest var atvinnuleysið á Norðurlandi eystra eða 2,2% af vinnuafli. Minnst var atvinnuleysið hins vegar á Austurlandi eða aðeins 0,3% af vinnuafli. Vinnumálastofnun telur að atvinnuleysi muni reynast á bilinu 1,3% til 1,6% í ágúst," segir reiningardeildin.