Skráð atvinnuleysi í febrúar var 1,3% og jókst um 0,1% frá fyrri mánuði. Atvinnuleysi hefur aukist lítillega undanfarna mánuði en það náði lágmarki í september og október þegar það mældist 1%, segir greiningardeild Glitnis.

?Sé atvinnuleysi leiðrétt fyrir árstíðarsveiflu mælist það 1,1% sem er lítilsháttar minnkun frá fyrri mánuði. Undanfarna þrjá mánuði hefur árstíðaleiðrétt verið um 1,1%-1,2% sem er það minnsta í þessari uppsveiflu. Vinnumálastofnun telur að atvinnuleysi í febrúar verði á bilinu 1,2%-1,4%.

Lítið atvinnuleysi er aðeins ein birtingarmynd mikillar spennu á vinnumarkaði um þessar mundir. Mikil atvinnuþátttaka, löng vinnuvika, mikil þátttaka útlendinga á íslenskum vinnumarkaði auk launahækkana umfram umsamin laun eru allt vísbendingar um mikla þenslu á vinnumarkaði. Gera má ráð fyrir að það dragi úr spennunni á vinnumarkaði þegar líður á árið og hægjast fer um í stóriðjuframkvæmdum. Að sama skapi gerum við ráð fyrir að einnig hægist um í annarri fjárfestingu og einkaneyslu,? segir greiningardeildin.

Hún segir hingað til hafa vísbendingar um stöðu á vinnumarkaði sýnt mikla spennu. ?Nú í janúar kemur þó fram í tölum frá Vinnumálastofnun lítilsháttar samdráttur í komu útlendinga til starfa í landinu og skráðum störfum í boði hjá vinnumiðlunum fjölgar lítillega.

Enn sem komið er eru þetta aðeins veikar vísbendingar um viðsnúning á vinnumarkaði. Í janúar var fjöldi nýrra útgefinna atvinnuleyfa 28 og 349 útlendingar sem ekki þurfa atvinnulyfi hófu störf á íslenskum vinnumarkaði í janúar. Það er lítilsháttar samdráttur frá því í fyrra,? segir hún.