Búist er við að gjaldþrot Wow air muni bitna einna harðast á vinnumarkaðnum á Suðurnesjum. Segja má að gjaldþrot Wow air sé fjórða stóra áfallið sem vinnumarkaðurinn á Suðurnesjum verði fyrir frá árinu 2006. Fyrsta áfallið varð með brotthvarfi Bandaríkjahers árið 2006 sem var stór vinnustaður á Reykjanesi. Við það bættist svo bankahrunið og kreppan sem fylgdi í kjölfarið, en atvinnuleysi á Suðurnesjum varð nærri 15% árið 2009 miðað við ríflega 9% á höfuðborgarsvæðinu. Þá hafa vonir um atvinnuuppbyggingu í Helguvík ekki ræst, sem hafi átt þátt í þungri fjárhagsstöðu Reykjanesbæjar. Þó hefur staða sveitarfélagsins lagast mikið á síðustu árum. Sér í lagi vegna uppbyggingar á Keflavíkurflugvelli. En nú eru blikur á lofti vegna falls Wow air.

Karl Sigurðsson, sérfræðingur hjá Vinnumálastofnun bendir á að atvinnuleysi á Suðurnesjum hafi verið hærra en annars staðar á landinu fyrir fall Wow air. Í febrúar mældist atvinnuleysi 5,1% á Suðurnesjum en 3,1% á landsvísu. „Á Suðurnesjum virðist verið að hægja meira á framkvæmdum og ýmsum þáttum þannig að það má alveg búast við því að atvinnuleysi hækki hlutfallslega meira, allavega til að byrja með,“ segir Karl. Hann bendir þó á að Vinnumálastofnun, stéttarfélögin, sveitarstjórnir, stjórnvöld og fleiri aðilar hafi þegar gripið til aðgerða á Suðurnesjum til að milda höggið af falli Wow air, til að mynda auðvelda fólki að komast í nám.

Eiga von á 3-4% atvinnuleysi á árinu

Vinnumálastofnun býst við að atvinnuleysi hækki um 1 til 1,5 prósentustig á þessu ári og verði á bilinu 3-4% á þessu ári en gæti hækkað í 4-5% á næstu árum. „Við erum mátulega bjartsýn og vonum að þetta verði ekki að djúpri kreppu,“ segir Karl Sigurðsson, sérfræðingur hjá Vinnumálastofnun, um stöðuna á vinnumarkaði eftir fall Wow air. „Auðvitað er það ekki gott fyrir þá sem verða atvinnulausir. Það má segja að 2-3% atvinnuleysi sé eðlilegt streymi en það sem er umfram það getur leitt til vandamála. Áherslan hjá okkur er alltaf að reyna að passa að fólk lendi ekki í langtímatvinnuleysi,“ segir Karl.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .