Í nýjum tölum hagstofunnar fyrir þriðja ársfjórðung 2017 kemur fram að atvinnuleysi á Íslandi er 2,2%. Það er 0,5 prósentustiga lækkun frá sama tímabili í fyrra. Fjölda atvinnulausra fækkar því um 900 manns en fjöldi starfandi stendur í stað frá 2016. Hlutfall starfandi af mannfjölda dregst því saman um 2,1 prósentustig. Í heildina eru nú 198.600 á vinnumarkaði en af þeim voru 194.300 starfandi og 4.300 án vinnu og í atvinnuleit.

Atvinnuleysi var hærra á höfuðborgarsvæðinu, þar sem það var 2,5%, heldur en á landsbyggðinni, þar sem atvinnuleysi stóð í 1,5%. Þá var atvinnuleysi meðal kvenna 2,5% en örlitlu lægra meðal karla eða 1,9%.

Langtímaatvinnuleysi sem jókst á milli áranna 2009 og 2012 er nú svipað og það var fyrir þann tíma. Eftir þriðja ársfjórðung 2017 stendur hlutfall langtímaatvinnulausra í 10,3% en það var 11,9% af atvinnulausum á sama tíma í fyrra.

Heildarfjöldi vinnustunda á viku voru 40,5 hjá þeim sem voru við vinnu í viðmiðunarvikunni. Þeir sem voru í fullu starfi unnu að jafnaði um 44,3 klukkustundir en fólk í hlutastarfi vann að jafnaði 25,9 klukkustundir.