Skráð atvinnuleysi mældist var 6,1% í júlímánuði og lækkaði um 1,3 prósentustig frá júní síðastliðnum. Alls fækkaði atvinnulausum um tvö þúsund manns milli mánaða, að því er kemur fram í skýrslu Vinnumálastofnunar. Skráð atvinnuleysi hefur lækkað um tæplega helming frá því í janúar síðastliðnum þegar það var 12,8%.

Atvinnulausir voru alls 12.537 í lok júlí, þar af 6.562 karlar og 5.975. Af þeim 1.779 atvinnulausu sem fækkaði á atvinnuleysisskrá í júlí fóru um 700 á ráðningarstyrk.

Atvinnuleysi var mest á Suðurnesjum eða 10,9% og minnkaði úr 13,7% í júní. Næst mest var atvinnuleysið 6,7% á höfuðborgarsvæðinu og lækkaði úr 7,9% frá fyrri mánuði.

„Vinnumálastofnun spáir því að atvinnuleysi minnki áfram í ágúst m.a. vegna sérstakra atvinnuátaka stjórnvalda og aukinna umsvifa og verði á bilinu 5,3% til 5,7%,“ segir í skýrslunni.

Alls hafði 5.361 atvinnuleitandi verið án atvinnu í meira en tólf mánuði í lok júlí og fækkaði um 457 frá júní. Hins vegar voru þeir 2.854 í júlílok 2020. Vinnumálastofnun gerir þó ráð fyrir því að fjöldi þeirra sem hafa verið án atvinnu í yfir tólf mánuði fari minnkandi næstu mánuði.

Fjöldi einstaklinga sem komu inn í ný störf sem auglýst voru í vinnumiðlun hjá Vinnumálastofnun voru 1.123 talsins í júlí. Um fjölbreytt störf var að ræða, flest störfin voru þjónustustörf eða 396 störf. Flest auglýstra starfa eru átaksverkefni eða reynsluráðningar eða um 89%, önnur teljast almenn störf.

Atvinnulausum fækkaði í öllum atvinnugreinum í júlí 2021 frá mánuðinum á undan, mest í ferðatengdri starfsemi eða á bilinu 22% til 25%. Einnig fækkaði atvinnulausum talsvert í menningartengdri starfsemi eða um 14% milli mánaða. Í öðrum atvinnugreinum var fækkun atvinnulausra á bilinu 6% til 15%. Í verslun og byggingariðnaði fækkaði atvinnulausum frá júní um tæp 10%.

Mynd tekin úr skýrslu Vinnumálastofnunar.