Atvinnuleysi í Þýskalandi hækkaði í desember síðastliðinn en fjöldi atvinnulausra jókst um 17 þús. og var umfram væntingar sérfræðinga sem bjuggust við 10 þús. aukningu. Atvinnuleysið í Þýskalandi hefur hækkað í ellefu mánuði í röð en nú mælist atvinnuleysishlutfallið 10,8%. Hlutfallið var óbreytt milli mánaða en er þó í sex ára hámarki segir í Vegvísi Landsbankans.

Þar kemur einnig fram að núverandi efnahagsástand í Þýskalandi er ekki talið ýta undir ráðningar hjá fyrirtækjum og því er talið að þau muni halda áfram að fækka starfsmönnum til þess að draga úr kostnaði. Sérfræðingar telja að ekki megi búast við úrbótum í atvinnumálum verði hagvöxtur á árinu ekki yfir 1,75%. Helstu hagfræðistofnanir Þýskalands lækkuðu nýverið hagvaxtarspá sína fyrir árið í 0,8%. Gangi spáin eftir eru því litlar líkur á að atvinnulífið taki við sér á árinu.