Skráð atvinnuleysi í ágúst var 1,2% eða að meðaltali 2.136 manns og eykst atvinnuleysi um tæp 9% að meðaltali frá júlí eða um 168 manns.  Þetta kemur fram á vef Vinnumálastofnunar.

Til samanburðar var atvinnuleysi í ágúst 2007 0,9% eða 1.476 manns.

Atvinnuleysi nú eykst aðallega á höfuðborgarsvæðinu eða um 13% og er 1,2% en var 1,1% í júlí. Á landsbyggðinni breytist atvinnuleysi lítið og er 1,3% eða sama og í júlí, að því er segir á vef Vinnumálastofnunar.

Alls 47 ný atvinnuleyfi gefin út í ágúst

Atvinnuleysi karla eykst um 14% frá júlí og er 1% en var 0,9% í júlí. Atvinnuleysi kvenna eykst minna en meðal karla eða um rúm 4% og mælist 1,6% en var 1,5% í júlí.

Nýskráningar ríkisborgara frá nýjum ríkjum Evrópusambandsins voru 343 í ágúst en voru 332 í júlí, samkvæmt upplýsingum Vinnumálastofnunar. Gefin voru út 47 ný atvinnuleyfi í ágúst.

Vinnumálastofnun spáir því að atvinnuleysi muni aukast í september vegna samdráttar í efnahagslífinu og að það verði á bilinu 1,2%-1,5%.

Skýrslu Vinnumálastofnunar um atvinnuleysi í ágúst má finna hér.