Atvinnuleysi í Ástralíu var 6,4% í síðasta mánuði sem er það hæsta sem mælst hefur í landinu í tólf ár. Ástæða aukins atvinnuleysis má rekja til þess að fleiri sóttust eftir vinnu en áður.

Hagstofa Ástralíu greindi frá því að um 0,3% hækkun væri í atvinnuleysi milli mánaða. 43.400 fleiri sóttust eftir vinnu í júlí en áður og 300 færri voru við atvinnu.

Fjöldi manna sem voru í atvinnuleit nam 789.000 í júlí. Því stóð atvinnuleysi í 6,4% sem er hæsta tala sem mælst hefur í Ástralíu síðan árið 2002 þegar það mældist 6,5%. Atvinnuleysi í Ástralíu er um þessar mundir hærra en í Bandaríkjunum þar sem það mældist 6,2% í júlí.