Atvinnuleysi í Bandaríkjunum mældist 4,4% í júní og urðu til 222 þúsund ný störf í hagkerfinu, borið saman við 4,3% atvinnuleysi og 152 þúsund ný störf í maí. Hagfræðingar á Wall Street höfðu gert ráð fyrir 175 þúsund nýjum störfum. Laun á hvern unninn klukkutíma hækkuðu um 2,5% milli ára og 0,2% milli mánaða. CNBC greinir frá.

Þess má geta að í júní voru átta ár liðin frá því að niðursveiflan í Bandaríkjunum náði lágpunkti.

Að meðaltali hafa orðið til 180 þúsund ný störf í Bandaríkjunum í hverjum mánuði á þessu ári. Árið 2016 urðu til 187 þúsund störf í hverjum mánuði að meðaltali.

Flest ný störf urðu til í heilbrigðisgeiranum, eða 37 þúsund. Þjónustugeirinn skapaði 35 þúsund ný störf. Fjármálageirinn skapaði 17 þúsund ný störf, félagsleg aðstoð 23 þúsund og námuvinnsla átta þúsund.

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, fagnaði nýjustu vinnumarkaðstölum á Twitter-síðu sinni í dag. „Nú eru hjólin farin að snúast, og við erum bara rétt að byrja!“ sagði Bandaríkjaforseti í Twitter-færslu, en hann er nú staddur á G20 ráðstefnunni í Hamborg.