Atvinnuleysi í Bandaríkjunum mælist nú 8,1% og hefur ekki verið hærra í aldarfjórðung að sögn Bloomberg fréttaveitunnar.

Þá er gera greiningaraðilar á vegum Bloomberg ráð fyrir því að atvinnuleysi haldi áfram að vaxa sem síðan muni leiða til þess að fleiri Bandaríkjamenn lendi í fjárhagserfiðleikum auk þess sem einkaneysla muni halda áfram að dragast saman.

Eins og áður hefur komið fram var um 651 þúsund manns sagt upp störfum í febrúar en yfir 600 þúsund mann hefur verið sagt upp í hverjum mánuði síðustu þrjá mánuði en það er í fyrsta skipti frá árinu 1939 sem það gerist.

Ríkisstjórn Barack Obama hafði gert ráð fyrir því að atvinnuleysi myndi mælast á bilinu 7,8% til 8,2% að meðaltali á þessu ári en sem fyrr segir hefur atvinnuleysi nú þegar náð þeim tölum.

Með nýjum björgunaraðgerðum, sem hljóðar upp á 787 milljarða dala, sem samþykktar voru á Bandaríkjaþingi í síðasta mánuði er gert ráð fyrir 3,5 milljónum nýrra starfa. Rétt er þó að hafa í huga að um 4,4 milljónir manna hafa misst vinnuna frá því að lausafjárkrísan fór að gera vart við sig að einhverju ráði í desember 2007.