Atvinnuleysi í Bandaríkjunum mældist 5,8% í októbermánuði og hefur ekki verið minna frá árinu 2008. Meðallaun standa hins vegar í stað milli mánaða. Reuters greinir frá þessu.

Þar kemur fram að 214 þúsund ný störf hafi skapast í októbermánuði og féll atvinnuleysisprósentan um 0,1 stig. Séu tölur fyrir ágúst og september skoðaðar kemur einnig í ljós að sköpuð voru 31 þúsund fleiri störf á tímabilinu en áður hafði verið gefið út.

Meðallaun launþega fyrir hvern unnin klukkutíma hækkuðu hins vegar einungis um þrjú sent í októbermánuði. Á ársgrundvelli hafa launin hækkað um 2%.