Bandarískt atvinnulíf bætti við sig 215 þúsund störfum í júlímánuði og mældist þá 5,3% atvinnuleysi í landinu. Er það minnsta atvinnuleysi sem mælst hefur í Bandaríkjunum síðustu sjö ár. BBC News greinir frá þessu.

Tölurnar gefa til kynna að bandarískt efnahagslíf sé í góðum farvegi um þessar mundir og telja greiningaraðilar að þær dragi í það minnsta ekki úr möguleikanum á að Seðlabanki Bandaríkjanna hækki stýrivexti í næsta mánuði.

Mest fjölgaði störfum í smásölu, heilbrigðisþjónustu, fjármálastarfsemi og tækniþjónustu. Síðasta árið hefur atvinnuleysi í Bandaríkjunum minnkað um 0,9% þar sem störfum hefur fjölgað um 1,4 milljónir talsins.