*

laugardagur, 18. september 2021
Erlent 4. september 2020 17:46

Atvinnuleysi í Bandaríkjunum minnkar

Hlutabréf halda áfram að lækka vestanhafs þrátt fyrir að atvinnuleysið hafi minnkað meira en vænt var.

Ritstjórn
epa

Bandarísk fyrirtæki eru byrjuð að ráða á ný þrátt fyrir bágt efnahagssástand vegna áhrifa heimsfaraldursins að því er merkja má úr nýjstu tölum yfir atvinnuleysi í landinu. Eins og Viðskiptablaðið sagði frá lækkuðu hlutabréf á mörkuðum landsins í gær, sérstaklega nokkurra tæknifyrirtækja sem hafa hækkað áberandi mikið síðustu mánuði.

Mesta lækkunin í gær var hjá Apple, Microsoft, Amazon, Tesla og Nvidia, en öll héldu þau áfram að lækka á eftirmarkaði um á milli 1 og 4%. Lækkun hlutabréfa vestanhafs hefur svo haldið áfram í dag, en nú hefur S&P 500 vísitalan lækkað um 1,63%, niður í 3.398,71 stig, en Nasdaq Composite vísitalan um 2,60%, í 11.159,96 stig.

Lækkun helstu tæknifyrirtækjanna virðist þannig hafa heldur færst í aukana þó síðan hafi dregið aðeins úr lækkunum, því gengi bréfa Apple hefur lækkað um 2,58%, í 117,76 stig, en um tíma í dag nam lækkunin 5,20%, í 114,60 dali. Microsoft hefur lækkað um 3,00%, niður í 210,58 dali, en um tíma nam lækkunin 3,72%, og þá hafði verðið farið í 209,21 dali.

Lækkun Amazon nemur nú 3,95%, eftir að fór niður í 3.235,0 dali, en um tíma var lækkunin 4,39% eftir að verðið hafði farið niður í 3.220 dali, Tesla hefur síðan hækkað eilítið á ný í dag, eða upp um 0,22%, upp í 407,90 dali, en um tíma nam lækkun bréfanna um 4,78%, eftir að hafa farið niður í 387,54 dali. Loks hefur tæknifyrirtækið Dvidia lækkað um 6,14%, og farið niður í 488,67 dali, en um tíma í dag fóru bréfin í 484,21 dali, sem samsvaraði 6,99% lækkun..

Í morgun jókst hins vegar ávöxtunarkrafa á bandarískra skuldabréf eftir að skýrsla bandarísku vinnumálastofnunarinnar birtist, samhliða lækkun á verði skuldabréfanna eins og WSJ fer yfir.

Í fyrsta sinn niður fyrir 10% eftir Covid

Með minnkun atvinnuleysisins nú fór það í fyrsta sinn niður fyrir 10% síðan í marsmánuði þegar heimsfaraldur kórónuveirufaraldursins varð öllum ljós, eða úr 10,2% niður í 8,4%, sem var töluvert umfram væntingar um að það færi niður í 9,8%.

Þannig bættust 1,37 milljón störf, utan landbúnaðargeirans, við vinnumarkaðinn í landinu en fjölgunin í júlí nam 1,73 milljón störfum, að því er fram kemur í tölum vinnumálastofnunar landsins.

Þessar tölur eru væntanlega sérstakt fagnaðarefni forseta landsins, Donald Trump, nú rétt tæplega tveimur mánuðum fyrir kosningar í landinu, þar sem kosið er um forseta, alla þingmenn í neðri deildinni og þriðjung í efri deild, auk fjölda annarra staðbundinna mála.

Samt sem áður segir Reuters að þrýstingur á stjórnvöld í landinu um áframhaldandi stuðningsaðgerðir við hagkerfið séu að aukast, enda sé samdrátturinn nú sá mesti síðan í Kreppunni miklu á fjórða áratug síðustu aldar.