Atvinnuleysi í Bandaríkjunum féll niður í 5,3 prósent og hefur ekki verið lægra síðan í apríl 2008, samkvæmt gögnum sem bandarísk stjórnvöld sendu frá sér í dag.

Þessar tölur eru betri en margir hagfræðingar þorðu að vona og hefur atvinnuleysi ekki verið minna síðan fyrir fjármálahrunið. Alls bættust við 223.000 störf í júnímánuði.

Einhverjir kvarta þó undan því að laun hafi ekki hækkað jafn mikið og eðlilegt þætti. Meðaltímakaup hækkaði einungis um tvö prósent á ársgrundvelli í júní og er það talsvert undir markmiðinu sem er 3,5 prósent.

Þá hefur dræm atvinnuþátttaka einnig valdið áhyggjum, en hún mælir það hlutfall fólks sem sem er í starfi eða leitar að vinnu. Atvinnuþátttaka hefur ekki verið lægri í 37 ár og gefur til kynna að margir hafi gefist upp á því að leita sér að starfi.