Atvinnuleysi í febrúar mældist 1,6% og er því óbreytt frá fyrri mánuði, segir greiningardeild Kaupþings banka.

Atvinnuleysi mældist 2,8% í febrúar í fyrra og hefur því dregist saman um 1,2% síðastliðna 12 mánuði.

Langtímaatvinnuleysi hefur farið lækkandi síðan í mars 2003, segir greiningardeildin. Skammtímaatvinnuleysi hefur einnig farið lækkandi síðan í byrjun árs 2003.

Samkvæmt tölum frá OECD er langtímaatvinnuleysi hér á landi mun minna en í öðrum löndum en OECD skilgreinir langtímaatvinnuleysi sem það atvinnuleysi sem hefur varað í 12 mánuði eða lengur.

Árið 2004 reyndist langtímaatvinnuleysi á Íslandi vera um 11% af heildaratvinnuleysi, en meðaltal OECD landanna nam 32% og er Ísland því í hópi þeirra landa með lægsta langtímaatvinnuleysi.

Alls voru um 2.338 manns að meðaltali á atvinnuleysisskrá í mánuðinum. Einstaklingar sem hafa verið atvinnulausir í meira en 6 mánuði reyndust vera um 25% af heildaratvinnuleysi í febrúar.

Atvinnuleysi mældist lægst í september og október í fyrra eða 1,4% og hafði það þá ekki verið lægra síðan í október 2001, þegar það mældist 1,2%.