*

miðvikudagur, 26. janúar 2022
Erlent 15. september 2020 08:37

Atvinnuleysi í Svíþjóð lækkaði

Atvinnuleysi, leiðrétt fyrir árstíðasveiflum, mældist 9,1% en hafði verði 9,2% í júlí. Búist hafði verið við óbreyttu atvinnuleysi.

Jóhann Óli Eiðsson
Frá Arlanda flugvelli í höfuðborginni Stokkhólmi.
epa

Atvinnuleysi í Svíþjóð minnkaði lítillega í liðnum mánuði. Batinn var ekki mikill en gefur þó góð fyrirheit um að nú horfi til betri vegar. Sagt er frá á vef Bloomberg.

Atvinnuleysi, leiðrétt fyrir árstíðasveiflum, mældist 9,1% en hafði verði 9,2% í júlí. Búist hafði verið við óbreyttu atvinnuleysi. Óleiðrétt atvinnuleysi féll að sama skapi lítillega, úr 8,9% í 8,8%. Áður en heimsfaraldur kórónaveirunnar rak á strendur Svíþjóðar hafði atvinnuleysi mælst 6,8%.

„Svo virðist sem atvinnuleysið hafi toppað nokkru fyrr en spár gerðu ráð fyrir,“ hefur Bloomberg eftir Michael Grahn, yfirhagfræðingi Danske Bank. Spár vinnumálastofnunar Svía gerðu ráð fyrir að fjöldi atvinnulausra myndi halda áfram að hækka um eitthvert skeið. Svartsýnustu spár gerðu ráð fyrir allt að 11% atvinnuleysi síðar á árinu en stofnunin hafði lækkað þá spá lítillega nýverið.

Betra útlit ætti að vera léttir jafnt fyrir sænska seðlabankann sem og Magnalenu Anderson, fjármálaráðherra þeirra Svía. Það styttist í að fjárlagafrumvarp næsta árs verði lagt fram en áætlanir ríkisstjórnarinnar gerðu ráð fyrir 100 milljörðum sænskra króna í vinnumarkaðsaðgerðir til að bregðast við áhrifum veirunnar. Nú er spurning hvort sú upphæð verði óbreytt eður ei.