Atvinnuleysi í Þýskalandi mældist 6,6% í októbermánuði og minnkaði um 0,1% frá fyrri mánuði. Þetta kemur fram í nýjum tölum frá Hagstofu Þýskalands. BBC News greinir frá þessu.

Fækkun atvinnulausra var meiri en greiningaraðilar höfðu búist við og fækkaði þeim um 14 þúsund manns milli mánaða. Nemur fjöldi atvinnulausra í landinu nú 2,87 milljónum manna, og hefur hlutfall atvinnulausra ekki mælst minna í landinu frá því samræmd mæling var tekin upp á evrusvæðinu árið 1998.

Samhliða voru birtar verðbólgutölur í landinu og hefur hún ekki mælst minni í næstum fimm ár. Lækkaði hún niður í 0,5% í nóvember úr 0,7% í október.