Árstíðaleiðrétt atvinnuleysi lækkaði um 110 þúsund í desember í Þýskalandi og að sögn Financial Times er von til þess að þessi þróun haldi áfram á þessu ári.

Fjöldi atvinnulausra í desember lækkaði niður í 4,64 milljónir manna, eða 11,2% vinnuaflans. Um er að ræða áttunda mánuðinn af síðustu níu sem lækkun hefur orðið og þykja þessi tíðindi góð fyrir Angelu Merkel, nýbakaðan kanslara Þýskalands. Hún hefur lýst yfir að höfuðbaráttumál hennar verði að minnka atvinnuleysi.

Lækkunin varð meiri en búist hafði verið við vegna óvenju mildrar tíðar, sem hefur leitt til færri uppsagna sem venjulega fylgja vetrinum, að sögn vinnumarkaðssérfræðinga. Þó kunna umbætur síðasta kanslara, Gerhards Schröders, að hafa haft eitthvað að segja.