Atvinnuleysi innan Evrópusambandsins mældist 10,1% í september og er svipað því sem var í ágúst. Atvinnuleysið hefur þó minnkað um 10,8% síðastliðið ár. Þetta kemur fram í nýjum tölum frá Eurostat, hagstofu Evrópusambandsins.

Eurostat áætlar að 24,5 milljónir manna innan Evrópusambandsins hafi verið atvinnulausir í september. Fækkar atvinnulausum um 108 þúsund milli mánaða. Frá því í september í fyrra hefur atvinnulausum hins vegar fækkað um 1,8 milljónir.

Meðal aðildarríkja Evrópusambandsins mældist atvinnuleysi minnst í Þýskalandi og Austurríki, eða í kringum 5%. Hins vegar var atvinnuleysi mest í Grikklandi, en þar mældist það 26,4%. Þá mældist atvinnuleysi á Spáni 24%.

Til samanburðar mældist atvinnuleysi á Íslandi 3% í september. Að meðaltali voru 5.029 atvinnulausir í mánuðinum og fækkaði atvinnulausum um 393 að meðaltali frá ágúst.