Atvinnuleysi jókst í 28 ríkjum Bandaríkjanna í júlí en var óbreytt í 14 og virðist sem verri stemning sé á vinnumarkaði vestra en búist var við, að sögn AP-fréttastofunnar . Aðeins dró úr atvinnuleysi í átta ríkjum.

Atvinnuleysi mældist 7,4% í Bandaríkjunum í júlí samanborið við 7,6% í mánuðinum á undan.

AP-fréttastofan bendir á að talsverður munur er á stöðu atvinnumála í Bandaríkjunum eftir landssvæðum. Þannig hafi atvinnuleysi haldist nokkuð stöðugt í suðurhluta Bandaríkjanna en þar hefur það verið á bilinu 7,3-7,8% síðastliðna tólf mánuði. Í öðrum landshlutum er það komið niður í rúm 7% úr 8-9% fyrir ári. Mest var atvinnuleysið í Nevada í júlí eða 9,5%. Þá er staðan ekki góð í Kaliforníu. Þar mældist 8,7% atvinnuleysi í júlí. Það er engu að síður mikil samdráttur á síðastliðnum 12 mánuðum en fyrir ári var það 10,6%.