Alls voru 17 þúsund einstaklingar atvinnulausir í mars síðastliðnum og fjölgaði um 3.900 eða um tæp 30% milli mánaða, samkvæmt árstíðaleiðréttum tölum Hagstofu Íslands . Árstíðaleiðrétt atvinnuleysi var 8,3% í mars, sem er um 1,9 prósentustiga hækkun milli mánaða.

Árstíðaleiðrétt atvinnuþátttaka var 78,1% og lækkaði um 0,1 prósentustig milli mars og febrúar. Árstíðaleiðrétt hlutfall starfandi nam 71,8%, sem er um 0,3 prósentustiga samdráttur frá fyrri mánuði.

Samanburður við mars á síðasta ári sýnir að atvinnulausum fjölgaði um 11.200 manns á milli ára eða um 5,4 prósentustig. Hlutfall starfandi dróst saman um 2,6 prósentustig á meðan atvinnuþátttaka jókst um 1,4 prósentustig á milli ára.

Í frétt Hagstofunnar segir að töluverður slaki hafi verið á vinnumarkaði í marsmánuði. Um 37.600 einstaklingar höfðu óuppfyllta þörf fyrir atvinnu sem jafngildir 17,4% af einstaklingum á vinnumarkaði og mögulegu vinnuafli. Samanburður við mars 2020 sýnir að slaki á vinnumarkaði hefur aukist um 7,2 prósentustig á milli ára.