Alls eru 11.317 manns skráðir atvinnulausir hjá Vinnumálastofnun þegar fyrsti mánuður ársins 2009 er rétt að verða hálfnaður. Þetta er tæplega 6,9% vinnufærra manna á Íslandi. Er þetta gríðarleg fjölgun frá því í desember þegar 7.902 voru á atvinnuleysiskrá eða 4,8%.

Karlar eru í miklum meirihluta atvinnulausra eða 7.107, en konur á atvinnuleysisskrá eru orðnar 4.210.

Atvinnuleysið er mest á höfuðborgarsvæðinu en þar eru  6.989 skráðir atvinnulausir. Þar á eftir koma Suðurnes með 1.452. Norðurland eystra sækir mjög í sig veðrið á þessari neikvæðu skrá, en þar eru atvinnulausir nú skráðir 1.135. Þar á eftir kemur Suðurland með 812 atvinnulausa á skrá, síðan Vesturland með 406, þá Austurland með 326 og Norðurland vestra með 115 á atvinnuleysisskrá.

Vestfirðir reka sem fyrr lestina með 82 á atvinnuleysisskrá, en skýringuna er trúlega að finna í þeim mikla brottflutningi fólks sem verið hefur frá Vestfjörðum undanfarin ár.