Atvinnuleysi mældist 6,8% í Bretlandi á fyrsta ársfjórðungi, samkvæmt upplýsingum vinnumálayfirvalda þar í landi. Atvinnuleysi mældist 6,9% í mánuðinum á undan. Staðan hefur ekki verið betri í fimm ár. Breskir fjölmiðlar benda á að Mark Carney, seðlabankastjóri Bretlands, hafi sagt að ekki verði hróflað við stýrivöxtum fyrr en atvinnuleysi fari undir 7% markið. Þessu samkvæmt er viðbúið að stýrivextir verði hækkaðir í Bretlandi fyrir árslok.

Carney fór yfir árferði í bresku efnahagslífi í morgun og kynnti nýja hagspá Englandsbanka. Fram kom í máli hans að efnahagslífið sé að komast á réttan kjöl eftir kreppuna og spái bankinn 2,9% hagvexti í Bretlandi á næsta ári. Það er 0,2 prósentustiga hækkun frá síðustu spá. Hins vegar er enn gert ráð fyrir 3,4% hagvexti í Bretlandi á þessu ári.

Breska dagblaðið Guardian hefur eftir Carney að hagkerfið sé komið á það ról að nú sé hægt að hefja hægfara vaxtahækkunarferli.