Af þeim 214 þúsund manns sem ætlað er að hafi verið á vinnumarkaðnum voru rúmlega 208 þúsund starfandi og 5.400 atvinnulausir eða um 1.200 færri en var í júní og 7.400 færri en í maí. Atvinnuleysi hefur því lækkað töluvert síðustu mánuði og er það komið niður í 3% í júlí sem er helmingi minna en í maí 2018. Um þetta er fjallað í Hagsjá Landsbankans.

Vinnutími styttist

Áhugavert er að greina frá því að vikulegur vinnutími virðist vera að styttast, hann var að jafnaði 40 stundir í júlí og hafði því fækkað um 1,1 stundir frá fyrra ári. Ef horft er á vinnutímann frá 12 mánaða meðaltali var vinnutíminn nú í júlí 38,9 stundir sem er 0,2 stundum styttri en á sama tíma fyrir ári, þetta gerir stysta vinnutímann á þennan mælikvarða í fjölda ára.

Staðan betri en ætlað var

Fyrr á árinu var ætlað að atvinnuleysi myndi aukast eftir því sem liði á árið og staða vinnumarkaðsins því versna hins vegar benda þessar nýju tölur Hagstofunnar ekki til þess. Atvinnuleysi hefur frekar minnkað og vinnuaflsnotkun hefur þróast með jákvæðum hætti síðustu mánuði.