Árstíðarleiðrétt atvinnuleysi mældist 1,8% nú í september og er nú orðið lægra en það sem samræmist stöðugu verðlagi að mati Landsbankans. Landsbankinn segir að reynslan í efnahagsmálum hér á landi síðasta áratuginn sýni að ekki séu til dæmi um að saman geti farið atvinnuleysi undir 2% og verðbólga undir 4%, sem eru jafnframt efri mörk verðbólgumarkmiðs Seðlabankans. Bankinn segir að reynslan sé sú að um leið og atvinnuleysi fari undir 2% aukist hættan á launaskriði verulega.

Samkvæmt upplýsingum frá Vinnumálastofnun mældist atvinnuleysið 1,4% í september og hefur það lækkað úr 3% í byrjun ársins. Það ber þó að taka vara af árstíðarbundnum sveiflum í atvinnuleysi sem er yfirleitt mest eftir áramótin og minnst síðsumars. Samt sem áður er ljóst að þrýstingur á vinnumarkaði er að aukast.

Atvinnuleysi mældist alls staðar undir 2% í september. Mest var atvinnuleysið 1,6% á Vestfjörðum en minnst á Vesturlandi eða 0,5%. Atvinnuleysi kvenna yfir allt landið mældist 2% en einungis 1% hjá körlum. Mest er atvinnuleysi meðal kvenna á Norðurlandi eystra (3,1%) en mest atvinnuleysi karla er á höfuðborgarsvæðinu (1,3%). Atvinnuleysi karla var minnst á Vesturlandi eða 0,2%. Þar var atvinnuleysi kvenna einnig minnst eða 0,9%.

Vinnumálastofnun gerir ráð fyrir að atvinnuleysið í októbermánuði verði á bilinu 1,4 til 1,7%.