Hlutfall atvinnulausra mældist 9,9% (±1,8) í maí, samkvæmt nýjum tölum Hagstofu Íslands . Það er um 3,9 prósentustigum hærra en í sama mánuði 2019 og 6,9 prósentustigum hærra en í maí 2018.

Aukið atvinnuleysi á vormánuðum er einkennandi fyrir íslenskan vinnumarkað og er helsta ástæðan aukin eftirspurn ungs fólks eftir atvinnu þegar skólum lýkur. Af öllum atvinnulausum í maí 2020 voru 40,4% á aldrinum 16-24 ára og var atvinnuleysi á meðal þeirra 23,3%.

Leita þarf aftur til áranna 2009-2011, þegar atvinnuleysi jókst í kjölfar efnahagskrísunnar, til þess að finna svipað hlutfall mánaðarlegs atvinnuleysis. Í mars, þegar áhrifa faraldursins fór fyrst að gæta á Íslandi, mældist atvinnuleysi 3,3% og hefur hlutfall atvinnulausra aukist um 6,6 prósentustig síðan.

Hagstofan áætlar að 209.500 (± 6.700) einstaklingar á aldrinum 16-74 ára hafi að jafnaði verið á vinnumarkaði í maí 2020 en það jafngildir 80,9% (±2,6) atvinnuþátttöku. Af vinnuaflinu er áætlað að 188.800 (±5.300) hafi verið starfandi en 20.800 (±3.800) án vinnu og í atvinnuleit. Áætlað hlutfall starfandi af mannfjölda var 72,9% (±2,8).