Skráð atvinnuleysi í september 2011 var 6,6 prósent og voru að meðaltali 10.759 atvinnulausir í mánuðinum. Þetta merkir að atvinnulausum fækkaði um 535 að meðaltali á milli mánaða, eða um 0,1 prósentustig, samkvæmt upplýsingum Vinnumálastofnunar.

Körlum á atvinnuleysisskrá fækkaði um 249 að meðaltali og konum um 286. Atvinnulausum fækkaði um 379 á höfuðborgarsvæðinu og um 156 á landsbyggðinni.

Atvinnuleysi var 7,6 prósent á höfuðborgarsvæðinu en 4,9 prósent á landsbyggðinni í mánuðinum.

Mest var atvinnuleysi á Suðurnesjum, eða 10,7 prósent. Minnst var það á Norðurlandi vestra, eða 2,1 prósent.

Fjöldi þeirra sem hafa verið atvinnulausir lengur en 6 mánuði er nú 6.842 og fækkar um 686 frá lokum ágúst og er um 60 prósent þeirra sem eru á atvinnuleysisskrá í lok september.