Lítillega dró úr atvinnuleysi á milli mánaða í janúar. Það mældist þá 7,2% samanborið við 7,3% í desember í fyrra, samkvæmt upplýsingum Hagstofunnar. Hlutfallið jafngildir því að 11.452 hafi verið atvinnulausir í mánuðinum.

Til samanburðar mældist 8,2% atvinnuleysi að meðaltali innan aðildarríkja Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD). Þar af er 10,4% atvinnuleysi á evrusvæðinu. Mest er það á Spáni, 22,9% en minnst í Austurríki, 4,1%.

Í umfjöllun Vinnumálastofnunar segir að óvenjulegt sé að atvinnulausum fækki á milli desember og janúar. Þvert á móti hafi þeim fjölgað. Fækkunin nú skýrist einkum af tvennu. Annars vegar fóru þeir 900 einstaklingar af atvinnuleysisskrá sem þóttu þátt í námsátakinu „Nám er vinnandi vegur“ nú á vormisseri. Í annan stað rann út um áramótin bráðabirgðaákvæði um minnkað starfshlutfall og í kjölfarið afskráðust tæplega 500 manns sem höfðu fengið greiddar atvinnuleysisbætur með hlutastarfi.

Fleiri karlar en konur án atvinnu

Vinnumálastofnun bendir jafnframt á að körlum á atvinnuleysisskrá hafi fjölgað um 61 að meðaltali á milli mánaða á sama tíma tíma og konum hafi fækkað um 369. Þá var 7,5% karla atvinnulausir í mánuðinum en 6,8% kvenna.

Mest var atvinnuleysið á Suðurnesjum 12,5%, en minnst á Norðurlandi vestra 2,8%. Atvinnuleysi mældist 7,8% á höfuðborgarsvæðinu samanborið við 8% í desember. Á sama tíma dró lítillega úr því á landsbyggðinni, fór úr 6,2% í 6,1%.