Atvinnuleysi mældist 10,3% á evrusvæðinu í október. Þetta er 0,1% meira en í mánuðinum á undan. Hagfræðingar höfðu almennt gert ráð fyrir óbreyttri stöðu á milli mánaða. Það hefur hins vegar ekki verið meira í 13 ár, eða frá 1998.

Til samanburðar mældist atvinnuleysi 6,8% hér í október.

Howard Archer, hagfræðingur hjá ráðgjafafyrirtækinu IHS Global Insight, segir í samtali við Bloomberg-fréttaveituna að svo lítil atvinnuþátttaka samfara 3% verðbólgu á evrusvæðinu auki líkurnar á vaxtalækkun á næsta vaxtaákvörðunarfundi evrópska seðlabankans.

Atvinnuleysi er mismikið eftir löndum. Það er langmest á Spáni, 22,8% en aðeins 4,1% í Austurríki.

Bloomberg bendir á að uppsagnir í fjármálageiranum hafi aukið atvinnuleysi verulega en bankar og fjármálafyrirtæki hafi sagt upp 200.000 manns frá áramótum.